Dómar og úrskurðir

Hrd. frá 18. október 2007 í máli nr. 619/2006 - 18.10.2007

var fjallað um skaðabótakröfu D gegn Íslenska ríkinu. Málavextir voru þeir að vandkvæði höfðu komið upp á meðgöngu og við fæðingu hans og varð hann m.a. fyrir fósturköfnun. Fljótlega eftir fæðingu hans komu í ljós alvarleg heilsufarsvandamál, fékk hann ítrekað flogaköst og fljótlega fór að bera á heilsufarsvandamálum og þroskafrávikum. Læknar voru fengnir til að meta fötlun hans og töldu þeir varanlegan miska vera 90 stig og varanlega örorku 100%. Talið var að leggja yrði til grundvallar, meðal annars vegna ófullnægjandi skráninga, að mistök hefðu orðið í aðdraganda fæðingar D og að Í bæri fébótaábyrgð á þeim afleiðingum sem taldar yrðu stafa af fósturköfnun. Matsmenn og læknaráð töldu að fleiri atriði en fósturköfnun í aðdraganda fæðingar kynnu að vera orsök fyrir fötlun D. Sönnunarbyrðin fyrir því  að D hefði allt að einu orðið fyrir tjóni þótt engin mistök hefðu verið gerð hvíldi á Í. Það tókst þeim ekki að sanna og var því fallist á skaðabótaábyrgð Íslenska ríkisins vegna tjóns D. Þess má geta að lögmaður D í málinu var Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður á LEX.