Dómar og úrskurðir

Hérd. Reykjavíkur frá 11. október 2012 í máli nr. E-4280/2011 - 11.10.2012

var fjallað um skaðabótakröfu M á hendur Tryggingamiðstöðinni hf. M slasaðist við störf sín hjá Einingaverksmiðjunni Borg ehf. þegar járnflís skaust í vinstra auga hans, þegar hann var að saga sakkaborð í borðsög. M var ekki með hlífðargleraugu þegar slysið varð. Í málinu var deilt um hvaða viðmiðunarlaun ætti að leggja til grundvallar vegna útreiknings á bótum fyrir varanlega örorku M. Tryggingamistöðin vildi byggja á almennu reglunni sem kemur fram í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna um að miða við meðaltekjur M síðustu þrjú ár fyrir slysdag. M taldi að aðstæður sínar hafi verið svo óvenjulegar að nota ætti heimildina í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Héraðsdómur féllst á að með hliðsjón af náms og starfsferli M gæfu tekjur síðustu þriggja ára fyrir slysið ekki raunsanna mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Þess má geta að lögmaður M í málinu var Björgvin Þórðarson héraðsdómslögmaður.